Fyrstudeildarlið Selfoss tók á móti Íslandsmeisturum FH í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í kvöld.
FH hafði frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn en munurinn var ekki mikill fyrr en liða tók að leikhléi. Selfoss skoraði ekki mark á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og FH breytti stöðunni úr 10-11 í 10-20 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var formsatriði fyrir gestina. Munurinn hélst í 9-10 mörkum en FH náði mest 11 marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn. Að lokum skildu 10 mörk liðin að, 25-35.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hákon Garri Gestsson skoraði 4/1, Sölvi Svavarsson, Jason Dagur Þórisson, Anton Breki Hjaltason, Valdimar Örn Ingvarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 2 og þeir Jónas Karl Gunnlaugsson, Álvaro Mallols, Skarphéðinn Steinn Sveinsson, Guðjón Baldur Ómarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson skoruðu allir 1 mark.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 6 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 5.