Hamar/Þór tók á móti Keflavík í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í gær. Það var við ramman reip að draga hjá Hamri/Þór og Keflavík vann að lokum öruggan sigur, 74-103.
Keflavík byrjaði betur og komst í 7-17 en staðan að loknum 1. leikhluta var 21-25. Annar leikhluti var eign gestanna sem náðu góðu áhlaupi í upphafi hans en staðan í hálfleik var 38-55. Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleikum, Keflavík hafði góð tök á leiknum og jók forskotið jafnt og þétt.
Athygli vekur að aðeins fjórir leikmenn komust á blað hjá Hamri/Þór í gær. Hana Ivanusa var stigahæst með 25 stig og 9 fráköst, Abby Beeman skoraði 22 stig, tók 7 fráköst og sendi 9 stoðsendingar, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 17 stig og tók 8 fráköst og Teresa Da Silva skoraði 10 stig.
Að loknum sex umferðum er Hamar/Þór í 6. sæti deildarinnar með 6 stig en Keflavík er í 2. sæti með 8 stig.