Selfyssingar unnu heldur betur mikilvægan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 28-27, í Set-höllinni.
„Það var mikil barátta og mikill hiti í þessum leik, örugglega fínar varnir en við vorum dálítið æstir og fórum fram úr sjálfum okkur. Það var mikið af mistökum hjá báðum liðum en það var líka mikið í húfi og þetta voru mikilvæg tvö stig fyrir okkur,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, maður leiksins hjá Selfyssingum, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Eftir skelfilega byrjun, þar sem Fram komst í 4-0, tóku Selfyssingar leikinn í sínar hendur og yfirspiluðu Framara síðustu tuttugu mínúturnar í fyrri hálfleik. Staðan var 15-11 í leikhléi.
Selfoss náði fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá tók Framvörnin við sér og hægt og bítandi minnkuðu gestirnir forskotið. Það var ekki háglans á handboltanum sem spilaður var í kvöld en baráttan þeim mun meiri og gaman að fylgjast með.
Fram jafnaði 21-21 þegar tíu mínútur voru eftir og eftir það var jafnt á öllum tölum. Tryggvi Þórisson skoraði sigurmark Selfoss þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum en þá átti heilmikið eftir að gerast – án þess að mörkin yrðu fleiri. Selfyssingar héldu út og voru nær því að auka forskotið heldur en Fram að jafna.
Guðmundur Hólmar Helgason var markahæstur Selfyssinga með 9/2 mörk og hann var sömuleiðis sterkur í vörninni ásamt Einari Sverrissyni sem skoraði 5/1 mörk. Tryggvi Þórisson var frábær á lokakaflanum, hann skoraði 5 mörk í kvöld, Ragnar Jóhannsson 3, Alexander Egan og Richard Sæþór Sigurðsson 2 og þeir Hergeir Grímsson og Karolis Stropus skoruðu 1 mark hvor.
Vilius Rasimas var góður í markinu, varði 13/1 skot og Sölvi Ólafsson varði 1.