Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson tryggði Íslandi 0-2 sigur gegn Andorra í fyrsta leik Íslands fyrir undankeppni Evrópumótsins 2020.
Viðar kom inná sem varamaður á 70. mínútu í stöðunni 0-1 en hann tvöfaldaði forskot Íslands með stórglæsilegu marki tíu mínútum síðar. Birkir Már Sævarsson átti þá fyrirgjöf frá hægri og Viðar mætti eins og gammur á nærstöngina og þrumaði boltanum upp í þaknetið.
Þetta var þriðja landsliðsmark Viðars en hið fyrsta í mótsleik og svaraði hann þar kallinu frá Erik Hamrén landsliðsþjálfara. Viðar hafði gefið það út á síðasta ári að hann væri hættur að spila með landsliðinu en eftir vistaskiptin til Hammarby í Svíþjóð í síðustu viku kallaði Hamrén hann inn í hópinn og Viðar þakkaði traustið með þessu glæsilega marki.
Viðar fagnaði markinu á skemmtilegan hátt og skaut um leið á félaga sinn Kjartan Henry Finnbogason sem hafði grínast á Twitter með að Viðar Örn hefði hætt við að hætta með landsliðinu.
🤐
— Kjartan Henry (@kjahfin) March 19, 2019