Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson hefur ákveðið að hætta að gefa kost á sér í íslenska landsliðið í knattspyrnu. Hann greindi frá þessu á Instagramsíðu sinni í morgun.
Viðar sem er 28 ára ára gamall hefur frá árinu 2014 spilað 19 A-landsleiki og skorað í þeim tvö mörk.
Viðar hefur oftast verið valinn í landsliðshópinn á undanförnum árum, en yfirleitt þurft að verma tréverkið í landsleikjum. Hann var hvorki valinn í lokahóp EM 2016 eða HM 2018. Hann segir nú tíma til kominn að hleypa yngri mönnum að.
„Elskaði hvert einasta augnablik með landsliðinu en nú er kominn tími á að hætta. Tími á næstu kynslóð. Þakka ykkur fyrir allt,“sagði Viðar á Instagram.