Það var Selfyssingaslagur í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld þegar Hammarby og Norrköping, lið Viðars Arnar Kjartanssonar og Guðmundar Þórarinssonar, áttust við.
Viðar Örn kom Hammarby yfir strax á 2. mínútu leiksins með frábæru framherjamarki en þetta var fimmta mark hans í deildinni á þessu tímabili. Norrköping náði að snúa leiknum sér í vil og leiða 1-2 í hálfleik.
Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik og á 72. mínútu lagði Viðar upp jöfnunarmarkið fyrir Hammarby og lokatölur urðu 2-2.
Viðar Örn var valinn maður leiksins hjá Hammarby en Guðmundur lék allan leikinn fyrir Norrköping og fékk góða dóma í sænskum fjölmiðlum fyrir sinn leik.
Hammarby er í 6. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki en Norrköping er í 8. sætinu með 15 stig.