„Viljum byggja upp körfuboltann í samfélaginu okkar“

Körfubolta-æfingabúðirnar „Camp USA“ verða haldnar í Iðu á Selfossi dagana 6.-7. ágúst næstkomandi. Enn er tækifæri til þess að skrá sig í búðirnar sem eru fyrir börn og ungmenni á aldrinum 8-13 ára og 14-20 ára.

„Við höfum sérstakan áhuga á því að fá yngri hópinn í æfingabúðirnar svo að við getum haldið áfram að byggja upp körfuboltann í samfélaginu okkar,“ sagði Eric Olson, sem stendur fyrir Camp USA, í samtali við sunnlenska.is.

Þetta er þriðja árið í röð sem æfingabúðirnar eru haldnar og hafa þær alltaf fallið í góðan jarðveg hjá þátttakendunum.

„Við erum með mjög reynda þjálfara, og reynum að auka kunnáttu hvers og eins iðkanda með fjölbreyttum æfingum,“ segir Olson en hann er einn þriggja aðalþjálfara í æfingabúðunum.

Þjálfarar við búðirnar eru þeir Mike Olson sem þjálfar við Kimball Union Academy, Jeff Trumbauer hjá Black Hill State University og Erik Olson þjálfari FSu. Aðstoðarþjálfarar við búðirnar verða þeir Baldur Þór Ragnarsson og Lárus Jónsson.

Erik Olson kom karlaliði FSu upp í úrvalsdeild á síðustu leiktíð með sigri FSu á Hamri í oddaviðureign 1. deildar. Erik er einnig aðstoðarþjálfari U20 ára landsliðs karla en hefur einnig verið aðstoðarþjálfari hjá U18 ára liði Bandaríkjanna og þjálfað í æfingabúðum sem þessum víða um heim.

Jeff Trumbauer er mikilsvirtur þjálfari hjá Black Hills State University hefur stýrt búðum í Svíþjóð, Íslandi, Skotlandi, Ástralíu og víðar. Black Hills State University leikur í 2. deild NCAA háskólaboltans en tveir fyrrum leikmenn FSu, þeir Fraser Malcolm og Erlendur Stefánsson munu hefja nám við skólann í haust og æfa með liðinu.

Mike Olson þjálfar miðskólaliðið Kimball Union Academy og hefur hann stýrt prógramminu þar á bæ síðastliðin sex ár. Margir af þeim leikmönnum sem hafa farið í gegnum liðið hjá Mike hafa síðar haldið áfram og leikið í 1. deild NCAA boltans. Hann var einnig aðalþjálfari U18 ára landsliðs Bandaríkjanna sem vann til silfurverðlauna á síðasta heimsmeistaramóti. Mike hefur komið í æfingabúðirnar á Selfossi öll árin en hann er talinn einn af betri kennurum í undirstöðuatriðum körfuboltans og með gott lag á að finna og þróa unga leikmenn.

Skráning fer fram á fsu.bjarmi@gmail.com

Fyrri greinAllir ökumenn til fyrirmyndar í þyrlueftirliti
Næsta greinLeikföng endurnýjuð fyrir gjafafé