Það er ekki á hverjum degi sem bestu kringlukastarar í heimi keppa á Selfossvelli en sú verður raunin næstkomandi laugardag þegar 75 ára afmælismót Frjálsíþróttasambands Íslands, Selfoss Classic, fer fram.
Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson, fyrrum Íslandsmethafi í kringlukasti, mætir frá Svíþjóð með lærisveina sína á mótið, þá Daniel Ståhl og Simon Pettersson. Þeir unnu gull- og silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó á síðasta ári. Vésteinn segist mjög spenntur fyrir að koma á Selfoss.
„Þetta hefur staðið til lengi og að geta komið heim í minn gamla heimabæ og halda afmælismót FRÍ í leiðinni og sjá kringluna fljúga á Selfossvelli er stórkostleg tilhugsun fyrir mig,“ sagði Vésteinn í samtali við sunnlenska.is. Hann segir að sínir drengir mæti ferskir til leiks.
„Daniel er vel undirbúinn og ég býst við góðum árangri frá honum. Simon á aðeins lengra í land í augnablikinu en er góður keppnismaður þannig að ég geri ráð fyrir að hann standi sig vel. Svo er bara von mín að vallarmetið verði slegið, ég held að ég eigi það ennþá 67,64m síðan 31. maí 1989,“ segir Vésteinn ennfremur.
Sterkir keppendur í kringlunni
Þeir Daniel og Simon eiga besta skráða árangurinn af keppendunum í kringlunni en hinir eru engir aukvisar. Að sjálfsögðu mæta sterkustu Íslendingarnir til leiks, þeir Guðni Valur Guðnason og Mímir Sigurðsson en meðal annarra keppenda eru Bandaríkjamaðurinn Sam Mattis, sem varð 8. á Ólympíuleikunum í Tókýó og Samóamaðurinn Alex Rose sem á best 67,48 m.
Auk mótsins á laugardag, þar sem keppt verður í átta greinum, bæði í karla- og kvennaflokki verður Vésteinn með opnar æfingar á Selfossi, bæði á miðvikudag og fimmtudag og á fimmtudagskvöld heldur hann fyrirlestur í Fjölbrautaskóla Suðurlands sem nefnist Frá Selfossi að Ólympíugulli.
Á laugardeginum hefst mótið klukkan 12:00 á frjálsíþróttavellinum á Selfossi en kringlukastskeppnin hefst klukkan 14:30.