Selfyssingar náðu sér aldrei á flug þegar Grótta kom í heimsókn á Selfoss í Olísdeild karla í kvöld. Gestirnir sigruðu 20-26.
„Ég er virkilega súr yfir þessu. Við erum að skjóta illa og tapa boltum og margir leikmenn eru bara ekki með, því miður. Við undirbjuggum okkur vel fyrir þennan leik en svo misstum við öryggið frá okkur og menn fara að efast um hlutina og ætla að fara að bjarga öllu og skora helst tvö mörk í hverri sókn og það fer bara með okkur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar byrjuðu leikinn ágætlega og á tíundu mínútu var staðan 4-2. Eftir það tók Grótta leikinn yfir, bæði í vörn og sókn, og Selfyssingar virtust ekki hafa neina trú á verkefninu. Staðan í hálfleik var 11-14.
Leikur Selfoss skánaði ekki í seinni hálfleik þar sem liðið skoraði aðeins níu mörk en Gróttumenn voru agaðir og héldu sínu striki. Á lokakaflanum var allur vindur úr Selfyssingum og aldrei var nein spenna í leiknum.
Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 5/2 mörk, Alexander Egan og Guðmundur Hólmar Helgason skoruðu 4 mörk, Tryggvi Þórisson 2, Ragnar Jóhannsson 2/1 og þeir Nökkvi Dan Elliðason, Einar Sverrisson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu allir 1 mark.
Vilius Rasimas varði 13 skot í marki Selfoss en maður leiksins var markvörður gestanna, Stefán Huldar Stefánsson, sem varði 21 skot, þar af þrjú víti.
Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 11 stig og mætir næst ÍBV í Suðurlandsslag á Selfossi strax á fimmtudaginn. Grótta er í 10. sæti með 9 stig.