Selfoss tapaði 1-0 þegar liðið heimsótti Breiðablik í toppslag Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.
„Ég var heilt yfir mjög sáttur við spilamennskuna. Þetta var hnífjafn leikur. Við hefðum átt að nýta föstu leikatriðin betur, fengum nokkur tækifæri en náðum ekki að pota boltanum inn. Það sem skildi liðin að hér í kvöld var vítaspyrnudómur í fyrri hálfleik. Að mínu mati var það rangur dómur,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Blikar voru ákveðnari í upphafi leiks en bæði lið áttu hættuleg færi. Þegar leið á fyrri hálfleikinn stjórnuðu Selfyssingar umferðinni án þess þó að skapa mikla hættu í fremstu víglínu. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins að Blikar komust yfir á 43. mínútu.
Fanndís Friðriksdóttir datt þá í teignum eftir litla snertingu frá Summer Williams. Arfaslakur dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu og Fanndís fór sjálf á punktinn og skoraði af miklu öryggi. 1-0 í hálfleik.
Dagný Brynjarsdóttir var nálægt því að jafna fyrir Selfoss strax í fyrstu sókn síðari hálfleiks en Sonní Lára Þráinsdóttir í marki Breiðabliks varði skalla frá henni. Annars voru færin ekki mörg hjá Selfyssingum í seinni hálfleik, þrátt fyrir að liðið væri sterkari framan af.
Þegar leið að lokum var leikurinn opinn en Blikar fengu betri færi til þess að bæta við marki en Selfyssingar til þess að jafna.
Eftir leiki kvöldsins er Selfossliðið komið niður í 3. sætið með 15 stig eins og Stjarnan en Garðbæingar hafa betra markahlutfall. Þar fyrir neðan er ÍBV með 13 stig. Blikar eru á toppnum með 19 stig.
Næsti leikur Selfoss er gegn KR á heimavelli mánudaginn 29. júní kl. 19:15.