Vokes-frændur veittu ÍH náðarhöggið

Aron Lucas Vokes. Ljósmynd/Selfoss

Lið Selfoss er komið í 32-liða úrslit í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir öruggan sigur á ÍH í 2. umferð keppninnar í kvöld.

Liðin mættust í Skessunni í Hafnarfirði og eftir þrettán mínútna leik höfðu Elvar Orri Sigurbjörnsson og Alexander Clive Vokes komið Selfyssingum í 0-2. Aron Lucas Vokes bætti þriðja markinu við á 22. mínútu en heimamenn náðu að minnka muninn rúmum tíu mínútum síðar.

Það voru þó Selfyssingar sem áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og þar var á ferðinni enn einn ungur og efnilegur heimamaður, Eysteinn Ernir Sverrisson, sem tryggði Selfyssingum 1-4 forystu í leikhléi.

Mörkin létu á sér standa í seinni hálfleiknum en tólf mínútum fyrir leikslok kom þriðja markið frá þeim Vokes-frændum þegar Aron Lucas lyfti boltanum skemmtilega yfir markvörð ÍH. Hafnfirðingar fengu svo sárabótarmark í uppbótartímanum og lokatölur urðu 2-5.

Selfoss tekur á móti Haukum í 32-liða úrslitum keppninnar en leikurinn fer fram á gervigrasinu á Selfossi kl. 14 á föstudaginn langa.

Fyrri grein„Mitt fólk á Suðurlandi kann að skemmta sér“
Næsta greinMyndi vilja ferðast út í geiminn