Selfoss tapaði 25-26 gegn Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta í kvöld. Úrslitin réðust í framlenginu þar sem spennan var mögnuð.
„Ég er bara fáránlega svekktur og vonbrigðin eru gríðarleg. Þetta var mikill rússíbani þessi leikur,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Til að bæta gráu ofan á svart þá missum við Kötlu í alvarleg meiðsli og þurftum að reyna ýmislegt í kjölfarið og náðum aldrei upp okkar leik. Katla er bara þannig leikmaður að við treystum mikið á hana og hún gefur okkur mikið. Það er erfitt að vera án hennar í svona mikilvægum leik. Að sama skapi hefði ég kannski getað verið betur undirbúinn undir það að þessi staða kom upp,“ sagði Eyþór ennfremur en stórskyttan Katla María Magnúsdóttir yfirgaf húsið í sjúkrabíl í fyrri hálfleik.
„Þrátt fyrir þetta þá er ég gríðarlega stoltur af liðinu. Við hefðum þurft eitt tvö óvænt móment sem hefðu gefið okkur orku en við vorum bara bensínlausar síðustu tíu mínúturnar. Þó að við höfum misst Stjörnuna aðeins fram úr okkur þá var baráttan til staðar allan tímann. Við fengum frábæran stuðning úr stúkunni og lögðum okkur fram fyrir fólkið okkar. Undanfarnir dagar eru líka búnir að vera frábærir. Að vera Selfyssingur og taka þátt í einhverju svona er rosalegt,“ sagði Eyþór að lokum.
Sveiflur og spenna
Stjarnan byrjaði betur í leiknum og skoraði fyrstu tvö mörkin en Selfoss jafnaði 3-3 og náði forystunni í framhaldinu. Selfossliðið varð fyrir mikilli blóðtöku á nítjándu mínútu þegar Katla María var borin meidd af velli eftir að hafa lent illa og meiðst á ökkla. Selfyssingar þéttu raðirnar í framhaldinu og staðan í hálfleik var 12-12.
Selfoss byrjaði vel í seinni hálfleik og náði þriggja marka forskoti, 19-16. Þá kom góður kafli hjá Stjörnunni sem komst tveimur mörkum yfir en Selfyssinga létu ekki segjast og jöfnuðu 23-23 þegar 26 sekúndur voru eftir og tryggðu sér framlengingu.
Í framlengingunni átti Stjarnan meira á bensíntankinum. Selfoss elti allan tímann og átti möguleika á að jafna í síðustu sókn leiksins en misstu boltann á ögurstundu og Stjarnan fagnaði naumum sigri. Garðbæingar mæta Val í bikarúrslitaleiknum.
Perla raðaði inn mörkum af vítalínunni
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/7 mörk, TInna Sigurrós Traustadóttir skoraði 6, Katla María Magnúsdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoruðu sitt markið hvor.
Cornelia Hermansson varði 7/1 skot í marki Selfoss og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 2.