Vörn og markvarsla í aðalhlutverki

Ágústa Tanja stóð fyrir sínu í markinu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti ÍR í Breiðholtið í úrvalsdeild kvenna í handbolta í dag. Varnarleikurinn var í hávegum hafður hjá báðum liðum og lokatölur urðu 17-17.

Það var jafnt á nánast öllum tölum, allan leikinn. Hvort lið náði mest tveggja marka forystu en andstæðingurinn jafnaði jafnharðan. Selfoss leiddi 8-9 í hálfleik.

Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir leiddi Selfoss 15-17 en þær vínrauðu skoruðu ekki mark á síðustu fimm mínútunum. ÍR jafnaði 17-17 þegar 70 sekúndur voru eftir af leiknum og bæði lið fengu sókn til þess að finna sigurmarkið, en það tókst ekki.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7/4 mörk og 100% skotnýtingu. Katla María Magnúsdóttir skoraði 5 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir 2 og Hulda Hrönn Bragadóttir 1.

Maður leiksins hjá Selfyssingum var hins vegar Ágústa Tanja Jóhannsdóttir sem varði 15/1 skot í markinu og var með 47% markvörslu.

Eftir leiki dagsins er Selfoss í 4. sæti deildarinnar með 9 stig en ÍR er í 6. sæti með 7 stig.

Fyrri greinFólk sýni aðgát á bökkum Hvítár
Næsta greinSvekkjandi tap á heimavelli