Vörnin small á besta tíma

Sölvi Svavarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss sótti heldur torsóttan sigur þegar þeir heimsóttu Hauka-2 í Hafnarfjörðinn í 1. deild karla í handbolta í kvöld.

Haukar-2 skoruðu fyrstu þrjú mörkin í leiknum og leiddu allan fyrri hálfleikinn með þriggja til fjögurra marka mun. Staðan í hálfleik var 15-11.

Heimamenn náðu fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá fóru Selfyssingar loksins að stíga í takt í vörninni. Munurinn minnkaði jafnt og þétt og þegar tæpar tíu mínútur voru eftir jafnaði Selfoss 20-20. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Selfossvörnin small saman á besta tíma og þeir vínrauðu skoruðu síðustu tvö mörkin í leiknum og tryggðu sér 24-26 sigur.

Sölvi Svavarsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Hannes Höskuldsson skoraði 6, Guðjón Baldur Ómarsson og Tryggvi Sigurberg Traustason 3 og þeir Patrekur Þór Öfjörð, Álvaro Mallols, Valdimar Örn Ingvarsson, Jónas Karl Gunnlaugsson, Anton Breki Hjaltason og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu allir 1 mark.

Alexander stóð sig vel í markinu og varði 15 skot.

Selfyssingar sitja í toppsæti deildarinnar með 14 stig eftir 9 leiki en Víkingur og Þór eru þar fyrir neðan með 12 stig og eiga leiki til góða. Haukar-2 eru í 7. sæti með 4 stig.

Fyrri greinMisjafnt gengi sunnlensku liðanna
Næsta greinGul viðvörun vegna asahláku