Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á botnliði FH í botnbaráttu Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 0-1 í leik þar sem FH stjórnaði leiknum allan tímann.
„Við stálum sigrinum hérna í Kaplakrika gegn geggjuðu FH-liði. Þær spiluðu okkur sundur og saman en sem betur fer erum við með besta miðvörðinn í deildinni sem átti frábæran leik ásamt fleirum. Markmaðurinn var frábær og vörnin stóðst storminn. En þetta var rán, og ekki boðlegt af okkar hálfu að sýna svona frammistöðu. Við þurfum meira en þetta til þess að halda sæti okkar í deildinni,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Þó að leikurinn í kvöld hafi ekki verið fallegur af hálfu Selfyssinga þá voru stigin þrjú sem liðið tók með sér heim gríðarlega mikilvæg. Selfoss hefur nú 15 stig og er komið upp í 5. sæti deildarinnar.
Eina mark leiksins kom uppúr aukaspyrnu á 21. mínútu. Ally Haran átti þá skot úr teignum sem markvörður FH varði en Haran náði frákastinu og potaði knettinum yfir línuna. Annars réðu FH-ingar ferðinni nær allan leikinn og Selfyssingar áttu erfitt með að byggja upp almennilegar sóknir.
Næsti leikur Selfoss er jafn mikilvægur því þá kemur Grindavík í heimsókn á Selfossvöll, fimmtudaginn 16. ágúst, en liðin eru að berjast á svipuðum slóðum á stigatöflunni.