Selfoss tapaði 0-2 þegar liðið fékk ÍR í heimsókn í dag í Inkasso-deild karla í knattspyrnu.
„Mér fannst við byrja ágætlega, við héldum boltanum ágætlega og ÍR-ingarnir voru ekki að skapa sér neitt. Það sem þeir voru að skapa sér, það vorum við að skapa fyrir þá. Við vorum alveg gríðarlega klaufalegir í dag,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og fátt um færi en ÍR-ingum tókst að komast yfir með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks eftir klafs í vítateig Selfyssinga.
Selfyssingar byrjuðu sprækir í seinni hálfleik en fengu engin opin færi. ÍR-ingar refsuðu þeim svo harkalega með marki úr skyndisókn á 81. mínútu og þar við sat.
Selfoss er með 1 stig að loknum tveimur umferðum og á fyrir höndum erfiðan útileik gegn HK næstkomandi föstudag.