„Vorum fullir af sjálfstrausti í kvöld“

Stórskyttan Einar Sverrisson var gríðarlega kátur í leikslok eins og allir félagar hans í Selfossliðinu eftir að hafa skellt ÍBV og tryggt sér sæti í undanúrslitum Símabikars karla í handbolta í kvöld.

Eyjamenn byrjuðu betur í leiknum og komust í 3-8 en þá mætti Sverrir Andrésson í markið og skellti í lás.

„Mér fannst við byrja eiginlega nákvæmlega eins og í deildarleiknum á móti þeim fyrr í vetur. Við vorum ekki búnir að kveikja á okkur þarna í byrjun, þeir fengu auðveld skot og svo klikkum við á færunum okkar hinum megin og gáfum þeim auðveld hraðaupphlaupsmörk sem er dýrt í svona leik.

Svo kemur flottur kafli þar sem Sverrir kemur inn á og fer að verja fullt af boltum, vörnin hrekkur í gang og þeir eiga erfitt með að skora á þessum kafla,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Síðari hálfleikur spilaðist líka ágætlega, menn voru að klikka á færum í sókn en innst inni fann maður það að við værum að fara taka þetta. Við vorum bara fullir af sjálfstrausti í kvöld og höfðum virkilega trú á þessu. Menn voru óhræddir við að gera mistök, og við gerðum mörg mistök í sókninni, en bættum upp fyrir þau í vörninni,“ sagði Einar.

Selfyssingar mæta ÍBV í næsta leik í deildinni á laugardaginn og verkefni liðsins næstu daga verður að ná sér niður á jörðina eftir þennan góða sigur í kvöld. Einar væntir þess að Eyjamenn mæti brjálaðir í næsta leik.

„Við þurfum að ná okkur niður á jörðina núna í vikunni og fara einbeita okkur af deildarleiknum. Það er bara nýr leikur á laugardaginn og má búast við hörkuleik þar aftur. Eyjamenn munu sennilega koma brjálaðir til leiks eftir tapið í kvöld,“ sagði Einar sem svaraði að lokum hinni klassísku bikarspurningu um óskamótherja í undanúrslitunum.

„Ég væri auðvitað sáttastur með að fá Stjörnuna en það á ekki að skipta neinu máli hver mótherjinn er eða í hvaða deild hann spilar. Þannig að mér er allveg sama hvaða lið við fáum.“

Fyrri greinÍris með rosalegar tölur
Næsta greinEndanlegur listi Samfylkingarinnar