Joe Tillen var frískur í sínum fyrsta deildarleik fyrir Selfoss og skoraði glæsilegt mark í fyrri hálfleik.
„Við byrjuðum aftur of seint. Þetta var sama sagan og í leiknum á móti ÍA í bikarnum á mánudaginn. Þeir kláruðu leikinn nánast í fyrri hálfleik, það er alltaf erfitt að koma til baka ef liðið lendir 3-0 undir en við sýndum mikinn karakter og bættum okkur í seinni hálfleik þó að það hafi ekki dugað til,” sagði Tillen í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Ég veit ekki hvað vandamálið var í byrjun leiks. Liðið varðist ekki nógu vel, við vorum kærulausir í upphafi og Fjölnir refsaði okkur fyrir það. Við þurfum að vera á tánum frá upphafi leiks,” sagði Tillen, sem minnkaði muninn í 3-1 með glæsilegu marki á lokamínútu fyrri hálfleiks.
„Já, þetta var ágætt mark en það telur ekki neitt svo mér er sama um það. Við ætlum að fara upp úr deildinni og til þess þurfum við að vinna leiki. Það er vissulega svekkjandi að tapa fyrsta leiknum en við verðum að vinna okkur hratt út úr þessari aðstöðu og vinna næsta leik,” sagði Tillen að lokum.