Ýmir hafði betur gegn Hamri

Óliver Þorkelsson skoraði fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í 4. deild karla í knattspyrnu lauk í dag en Hamar heimsótti Ými í Kórinn í lokaumferðinni. Jafntefli myndi tryggja Ými sæti í 3. deildinni að ári en Hamarsmenn höfðu að litlu að keppa.

Hvergerðingar byrjuðu af krafti og Máni Snær Benediktsson og Óliver Þorkelsson komu þeim í 0-2 snemma leiks. Ýmir minnkaði muninn á 38. mínútu og staðan var 1-2 í hálfleik.

Ýmismenn voru sterkari í seinni hálfleiknum og bættu við mörkum á 61. og 76. mínútu. Lokatölur urðu 3-2 og Ýmir fagnaði vel í leikslok.

Hamar lauk keppni í 4. sæti deildarinnar með 30 stig. Tindastóll og Ýmir fara upp í 3. deildina en Árborg varð í 3. sæti, tveimur stigum á eftir Ými.

Fyrri greinEva Lind jafnaði í uppbótartímanum
Næsta greinAlvarleg bilun í Sundhöll Selfoss