Selfyssingar leika í kvöld gegn Leikni Reykjavík í 1. deild karla í knattspyrnu kl. 19 á Selfossvelli.
Selfoss er fyrir leikinn í 2. sæti deildarinnar með fjögurra stiga forystu á næsta lið, Hauka.
Þessi leikur er sérstakur fyrir þær sakir að fyrrverandi þjálfari Selfyssinga, Zoran Miljkovic, mætir í fyrsta skipti með lið sitt á Selfossvöll eftir að hann hætti störfum hjá félaginu árið 2008. Zoran gerði góða hluti á Selfossi, kom liðinu upp úr 2. deild á sínum tíma og minnstu munaði að hann hefði komið því beint upp í úrvalsdeildina strax árið eftir.
Zoran tók við liði Leiknis Reykjavík fyrir tæpum mánuði eftir að erfiðlega hafði gengið hjá liðinu framan af sumri. Leiknismenn hafa unnið þrjá leiki í röð síðan Zoran tók við og geta komist úr fallsæti með sigri á Selfoss.
Selfyssingar eru í baráttu á hinum enda töflunnar og þurfa ekki síður á þremur stigum að halda í kvöld.