„Þetta var nú bara talin sérviska“

Þórður Tómasson fyrir utan byggðasafnið í Skógum, árið 2011. sunnlenska.is/Sigmundur Sigurgeirsson

„Þetta var nú bara talin sérviska,“ segir safnvörðurinn Þórður Tómasson í Skógum þegar Sunnlenska innir hann eftir því hvað almenningi hafi þótt um ævistarfið sem hann valdi sér á stríðsárunum seinni fyrir hartnær sjö áratugum.

Tuttugasta bók Þórðar kom út nú í mánuðinum og heima í Skógum er safnið sjálft vitnisburður um starf eldhuga sem skilað hefur margföldu dagsverki.

Þrátt fyrir að vera kominn á tíræðisaldur sleppir Þórður ekki úr degi í starfi sínu við leiðsögn og umsjón Skógasafns. Einstakir gripir og heilir safnhlutar lifna í frásögn og þegar orgeltónar og söngur safnvarðar hljóma er sem gestir séu komnir öld aftur í tíma.

Það er því mikils um vert að hluti þessa sé festur á blað og það er gert í ritum safnvarðarins. Nýjasta bók hans er sérstaklega um Skógasafn, muni þar og sögu þeirra. Þórður gerir meira en að segja aðeins frá uppruna gripanna og frá eigendum þeirra. Hann setur þá í samhengi við listasöguna og ritið allt á þannig jöfnum höndum erindi við listfræðina og þjóðfræðina.

Auk skriflegra heimilda koma hér við sögu tugir heimildamanna sem Þórður hefur rætt við á langri leið.

Þórður sem fæddur er 1921 dró mikinn fróðleik frá 19. aldar fólki. En hverjir voru þar elstir í þeim hópi og hverjir minnisstæðastir: „1851, það var Sigurbjörg gamla á Syðstu Grund, hún var fædd seint á því ári, 1851 og las oft upp pápíska bæn sem ég fer stundum með sjálfur. Ég byrjaði ungur að fræðast af fólki í mínum heimahögum og það er stundum eins og mönnum sé ætlað eitthvert ákveðið hlutverk í lífinu,“ segir Þórður í stuttu spjalli við blaðamann.

Eftirminnilegust úr stórum hópi 19. aldar heimildamanna segir Þórður að séu annarsvegar þær Arnlaug Tómasdóttir fóstra hans heima í Vallatúni og Þuríður Jónsdóttir í Hvammi sem fædd var 1852, mikil gáfukona.

„Svo var það Sigurður Hornfirðingur, menn litu jafnvel á hann sem hálfgerðan fáráð og hann hélt sér lengi uppi með því að ferðast milli vina sinna,“ segir Þórður en árið 1988 sendi hann frá sér bókina Þjóðhættir og þjóðtrú sem skráð var eftir Sigurði. „Hann var af Mýrunum og í frændsemi við þá Gunnar Benediktsson og Þórberg Þórðarson, var sjálfur sósíalisti og þessvegna var kveðið þegar hann var í Vestmannaeyjum:

Kommúnistar komust að,
klofnaði auðvaldshringur.
Sovétvinur sagði það,
Sigurður Hornfirðingur.“

Þórður grípur í ritstörf hvenær sem tóm gefst frá leiðsögn í safninu. Heima í stofu sýnir hann blaðamanni handrit að næstu bók, Mjólk í mat. Þar er fullbúin bók og virðist ekki minni að vöxtum en sú sem nú er nýkomin út. Sunnlenska fréttablaðið óskar höfundinum til hamingju með glæsilegt verk.

Fyrri greinÞór úr leik í Lengjubikarnum
Næsta greinAndlát: Sigurður Sigmundsson