Undanfarin ár hefur Karlakórinn Þrestir lokið söngári með tónleikum í Skálholti. Þar hafa þeir opið hús og njóta þess að syngja í hljómfegurstu og fallegustu kirkju landsins.
Tónleikarnir fara fram á morgun, fimmtudaginn 1. maí kl. 15.
Gestir og gangandi, heimamenn og ferðamenn, allir fá í eyru eitthvað við sitt hæfi. Auk hefðbundinna karlakórslaga úr efnisskrám undanfarinna ára og áratuga flytja Þrestir vinsæl ljúflingslög dægurtónlistarinnar. Stíga þar með aðeins út fyrir ramma tónlistar karlakóranna, líkt og þeir hafa gert áður með kórútsetningum og flutningi á íslenskum einsöngslögum.
Píanóleikur er í höndum Jónasar Þóris, meðleikara kórsins í rúman áratug og stjórnandi er Jón Kristinn Cortez.
Enginn fer leiður af tónleikum Þrasta og athygli er vakin á því að ókeypis aðgangur er að þessari fjölskylduskemmtun.