Þriðjudagskvöldgöngur hefjast í kvöld

Kvöldgöngur þjóðgarðsins á Þingvöllum hefjast í kvöld en þá mun ný gönguferðasyrpa hefja göngu sína undir nafninu Þriðjudagskvöld á Þingvöllum.

Í þeim munu mismunandi fræðimenn fjalla um náttúru Þingvallasvæðisins. Fyrstur verður Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum sem fjallar um lífríki Þingvallavatns en titill göngunnar er „Engar venjulegar bleikjur – um þróun lífs í Þíngvallavatni”.

Skúli ásamt öðrum hefur um langt árabil stundað rannsóknir á lífríki Þingvallavatns. Í gönguferðinni verður fjallað um lífríki Þingvallavatns með sérstakri áherslu á vistfræði og þróun bleikju og hornsílis. Gerð verður grein fyrir hvernig sérstök jarðfræði svæðisins og þróun lífríkisins spilar saman.

Skúli mun velta fyrir sér nytja og verndunarsjónarmiðum og ræða á hvern hátt virðing og þekking skipta miklu máli í samskiptum okkar við náttúruverðmæti eins og Þingvallavatn.

Gönguferðin hefst í Vatnskoti kl. 20.00 og eru allir velkomnir – en vissara er að vera vel skóaður og búinn til útiveru.

Upplýsingar um allar þriðjudagsgönguferðir í sumar má sjá á heimasíðu þjóðgarðsins.

Fyrri grein50 ár með skærin á lofti
Næsta greinÞjónustumiðstöðvum lokað