Starfsfólk Byggðasafns Árnesinga býður gestum og gangandi að heimsækja Varðveisluhús safnsins á Búðarstíg 22 á Eyrarbakka sunnudaginn 29. október á milli klukkan 14 og 17.
Gestir fá leiðsögn um öll rými hússins þar sem safneign Árnessýslu er varðveitt og í leiðinni verður starfsemin útskýrð. Safnið flutti starfsemi sína í bygginguna árið 2021 og er þetta í annað sinn sem opið hús er haldið.
„Við ætlum að nota þetta tækifæri til að hella á könnuna og bjóða gestum í afmæliskaffi þar sem 70 ára afmælisár safnsins er brátt á enda. Kaffiveitingar verða í fjölnota salnum okkar og tökum við vel á móti öllum eins lengi og húsrúm leyfir,“ segir í tilkynningu frá safninu.