Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi hefur sent frá sér bókina Vinur Landeyings eftir ævintýramanninn Thorvald Peter Ludvig Weitemeyer í þýðingu Ragnars Böðvarssonar.
Hér er á ferðinni 19. aldar frásögn frá Ástralíu kom fyrst út á ensku 1892 undir heitinu Missing friend. Í frásögn þessari koma meðal annars fram afdrif þess eina Íslendings sem flutti til Ástralíu á tímum þjóðflutninga 19. aldar þegar allt að fimmtungur íslensku þjóðarinnar fór til Vesturheims.
Líkt og í Kanada gerðu yfirvöld í þessari fyrrum fanganýlendu Breta Evrópumönnum boð um að koma og setjast að. En lífið þar syðra var hart og ævintýralegt og þar segir fátt af einum. Í meira en öld voru afdrif Þorvaldar jarðyrkjumanns frá Bryggjum ókunn jafnt ættmennum hans og ættfræðingum hér heima. Fréttir af Þorvaldi og andláti hans bárust fyrst um aldamótin 2000 þegar aldargömul bók Weitemeyers barst í hendur Magnúsi Ó. Ingvarssyni í Keflavík.
Hér rekur danskur ævintýramaður sögu sína og segir um leið sögu vinar síns og ferðafélaga frá Íslandi. Sveitadrengs sem var alltof blíðlyndur fyrir hið hrjúfa líf óbyggðanna. Þorvaldur frá Bryggjum var kominn langt að heiman þegar hann veiktist skyndilega í tjaldi sínu á regnvotum degi í janúarmánuði 1874. Frásagnir af andláti hans eru hinar ævintýralegustu og rithöfundurinn gefur skáldfáki sínum lausan tauminn.
Öll frásögn Weitemeyers af lífi landnema í Drottningarlandi í Ástralíu er lífleg og skemmtileg. Hann gerir lítið til að fegra sjálfan sig og segir jafnt frá eigin hetjudáðum og asnaskap. Ferðalangurinn kemst í hann krappan í baráttu við flóð, sjúkdóma og krókódíla. En hann er ekki síður í vandræðum þegar hann reynir að temja sér siði breskra herramanna og leggur á flótta undan unnustu sem tekur að sér að temja hinn óstýriláta sögumann.
Bók Weitemeyers kemur nú fyrir sjónir íslenskra lesenda í frábærri þýðingu Ragnars heitins Böðvarssonar frá Bolholti á Rangárvöllum. Ragnar náði að ljúka við þýðinguna í ársbyrjun 2014 en veiktist meðan sú vinna stóð yfir og lést í maímánuði 2014.