Í kvöld kl. 20 mun Sigurjón Pétursson halda fyrirlestur og leiða gesti um ljósmyndasýninguna Aðventa á Fjöllum sem nú stendur yfir í bókasafninu í Hveragerði að Sunnumörk 2.
Á sýningunni getur að líta svarthvítar ljósmyndir Sigurjóns af landslaginu á Fjöllum í vetrarbúningi. Myndirnar eru afrakstur níu vetrarferða veturinn 2010-2011 um sögusvið Aðventu á Mývatnsöræfum, en það markast af Mývatni í vestri, Dettifossi í norðri, Jökulsá á Fjöllum í austri og Grafarlöndum í suðri.
Ljósmyndir Sigurjóns hafa allar tilvísun í hina ódauðlegu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, sem fyrst kom út á þýsku árið 1936. Sigurjón valdi hundrað og tuttugu setningar og setningabrot úr sögunni. Að því loknu samdi hann tökuáætlun þar sem myndefnið var valið út frá textunum þannig að úr varð heild með vísun í söguna og hélt síðan á fjöll til myndatöku.
Hverri mynd fylgir því tilvitnun úr Aðventu. Skáldsagan er þannig til hliðsjónar og innblásturs. Vinnulagið minnir nokkuð á aðferð Gunnars löngum við skrif smásagna með tilvísun í íslenskar þjóðsögur og sagnir.
Sigurjón er áhugaljósmyndari sem hefur ljósmyndað vítt og breitt um Ísland, sem og víða um heim, s.s. í Grænlandi, Alaska, Bandaríkjunum, Kína, víða um Evrópu, Líbanon og Namibíu.
Í tengslum við sýninguna gefur Sigurjón, ásamt eiginkonu sinni Þóru Hrönn Njálsdóttur, út ljósmyndabókina Aðventa á Fjöllum og fæst hún í bókaverslunum.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.