Í dag verður mikið um að vera á Sólheimum og allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi.
Dagskráin byrjar klukkan 11 með jólastund Kirkjuskólans í Sólheimakirkju, jólasveinar koma í heimsókn og heilsa upp á börn og fullorðna.
Klukkan 14 verða tónleikar Breiðfirðingakórsins í Sólheimakirkju og mun kórinn syngja falleg jólalög, létt og skemmtileg dagskrá en líka hátíðleg. Hrönn Helgadóttir, stjórnandi kórsins, lofar því að tónleikagestir komist í hátíðarskap.
Klukkan 15:30 mun Bogomil Font taka við keflinu og halda uppi dannaðri jólastemningu á kaffihúsinu Grænu könnunni og flytja nokkur erlend og innlend dægurlög ásamt undirleikara.
Aðgangur er ókeypis á alla viðburði. Samsýning vinnustofa er í Ingustofu, verslunin Vala og kaffihúsið Græna kannan eru opin frá 14-18.
Verið öll hjartanlega velkomin.