Aðventumarkaður í Brimrót á sunnudaginn

Ljósmynd/Aðsend

BrimRót co.op stendur fyrir aðventumarkaði á efri hæð Gimli á Stokkseyri sunnudaginn 20. desember frá kl. 13 til 17.

„BrimRót vill efla menningarstarfsemina á Stokkseyri og veita handverki og listum vettvang til að blómstra. Nú í ár er einmitt kjörið að versla í heimabyggð og styrkja listamenn og einyrkja. Miðað við frábærar móttökur í byrjun desember er ekkert annað í boði en að endurtaka leikinn. Heitt verður á könnunni og jólatónar fylla loftið,“ segir Alda Rose í samtali við sunnlenska.is.

Á markaðnum verður ýmislegt til sölu; bækur, nýjir og eldri titlar á spottprís, skartgripir, handlitað garn frá Hex Hex Dye works og Smekkleysa plötubúð verður einnig með mini útibú með plötur og geisladiska til sölu.

Auk þess eru ljósmyndaverk eftir Hönnu Siv sem var með áhugaverða sýningu í sumar á Gallerí Stokk og grafíkverk og handþrykkt dagatöl eftir Öldu Rose Cartwright. Í hópinn bætist svo jólaskraut frá Myrru Rós og Júlíusi Óttar Björgvinssyni sem er brætt og mótað úr gömlum orgelpípum frá Orgelsmiðjunni á Stokkseyri.

Brimrót er á efri hæðinni á Gimli, við Hafnargötu 1 á Stokkseyri.

Fyrri greinNiðurinn frá ánni – Áttunda bók Péturs Önundar
Næsta greinTvær milljónir úr getraunastarfinu til sunnlenskra félaga