Bókakaffið í Ármúla 42 leggur nú sérstaka áherslu á ættfræðibækur. Markaðurinn stendur út febrúar, og þar má finna bækur á sanngjörnu verði í notalegu andrúmslofti.
„Við erum með lagersölu á fjölmörgum vinsælum niðjatölum og auk þess mikið úrval notaðra ættfræðibóka og fágætra smárita um ættfræði. Alltaf er eitthvað nýtt á boðstólum í hverri viku og hér gildir hið fornkveðna að fyrstur kemur, fyrstur fær,“ segir Bjarni Harðarson, bóksali.
Bókakaffið festi nýlega kaup á bókalager Ættfræðiþjónustunnar en þar er meðal annars að finna fjölmörg þeirra ættfræðirita sem komu út á seinasta fjórðungi 20. aldar. Þá hafa smærri söfn ættfræðibóka borist fyrirtækinu með öðrum bókasöfnum.
Í Bókakaffinu í Ármúla er einnig gott úrval af íslenskum ævisögum, þjóðlegum fróðleik, sagnfræði og fleiru. Bókakaffið selur jöfnum höndum nýjar og notaðar bækur. Auk bókanna sem gestir finna í hillum hefur verslunin yfir að ráða stórum bókalager notaðra bóka austanfjalls en Bókakaffið í Ármúla er hluti af rekstri Bókakaffisins á Selfossi.
Meðal þeirra ættartölurita sem bjóðast nú á hagstæðu verði í lagersölu má nefna Auðsholtsætt, Bollagarðaætt, Briemsætt, Deildartunguætt, Engeyjarætt, Galtarætt, Gunnhildargerðisætt, Hallbjarnarætt, Hreiðarsstaðakotsætt, Húsatóftaætt, Knudsensætt, Laugardalsætt, Longætt, Lækjarbotnaætt, Ófeigsfjarðarætt, Pálsætt undan Jökli, Reykjaætt, Róðhólsætt, Zoëgaætt og að auki margskonar smáprent og stéttatöl.
Bókakaffið í Ármúla 42 er opið frá 11-18 alla virka daga og frá 11-16 á laugardögum og alltaf er heitt á könnunni.