Tónlistarmaðurinn og Þorlákshafnarbúinn Tómas Jónsson ætlar að taka á móti góðu fólki í Versölum í Ráðhúsi Ölfuss nú á haustmánuðum.
Á tónleikunum mun Tómas leika á allskyns hljómborðshljóðfæri og tónlistarfólkið sem ætlar að saxa út í súpuna, ýmist með söng eða hljóðfæraleik, eru þau Ragga Gísla, Valdimar Guðmundsson, GDRN og hljómsveitin ADHD – þar sem Tómas er einn meðlima – mun enda tónleikaröðina.
„Þetta verða afslappaðir og heimilislegir tónleikar þar sem gæti brostið á með spjalli. Ég býst við einlægum flutningi í dúóútsetningum. Rólegheit gæti verið í hávegum þó að stuð gæti sloppið á skeið,“ segir Tómas í samtali við sunnlenska.is.
Kaffi og ástarpungar
Tómas hefur tvisvar áður verið með tónleikaröð í Þorlákshöfn með svipuðu sniði. „Mér fannst mín aðstaða bjóða svo vel uppá það að fá í „heimsókn í sveitina“ eitthvað af því frábæra listafólki sem ég er svo lánsamur að fá að þekkja og vinna með. Mér finnst gaman að fá fólk úr svolítið ólíkum áttum. Okkur Ásu eiginkonu minni datt síðan í hug að bjóða uppá kaffi og heimagerða ástarpunga. Við hellum uppá dýrindis kaffi svo nú þurfum við bara að læra að gera ástarpunga.“
„Ég er mjög spenntur fyrir þessu öllu saman. Það er spennandi fyrir mig að brainstorma og finna fleti á efni með hinu listafólkinu. Svo er eitthvað notalegt sem fylgir því að búa svona til í túninu heima,“ segir Tómas að lokum.
Allar nánari upplýsingar um tónleikana má finna á Facebook.