Ágústa Ragnarsdóttir hlaut lista- og menningarverðlaun Ölfuss árið 2024 fyrir ómetanlegt starf í þágu menningarmála í Ölfusi og fyrir öflugt og eftirtektarvert framlag til listar, fræðslu og hönnunar í heimabyggð.
Verðlaunin voru veitt síðastliðið föstudagskvöld á kvöldvökunni á bæjarhátíðinni Hamingjan við hafið.
Ágústa hefur komið víða við í menningarlífinu í Ölfusi og hefur verið virkur þátttakandi frá unga aldri. Hún er grafískur hönnuður að mennt og atvinnu og hefur komið að fjölbreyttum verkefnum í Ölfusi bæði sem hugmyndasmiður og hvatakona. Ágústa er formaður Lúðrasveitar Þorlákshafnar sem fagnaði 40 ára afmæli í ár með stórtónleikum.
„Ágústa er þekkt fyrir að vera samstarfsfús og viljug til góðra verka í okkar samfélagi. Hún hefur komið að eða haft frumkvæði að sem dæmi útisögusýningum við Selvogsbraut, söguskiltum á hverfisverndarsvæðinu, merkjum fyrir sveitarfélagið, jólaóróum Lúðrasveitarinnar og veggjalistaskreytingum á veggjum bæjarins,“ segir í greinargerð með verðlaununum. Þar segir einnig að Ágústa hafi verið einstaklega virk og afkastamikil allan sinn feril og má segja að afkastagetan fari stigvaxandi með aldrinum.