Sjónvarpsþættirnir Katla eftir Baltasar Kormák hafa heldur betur slegið í gegn síðan þeir voru frumsýndir á streymisveitunni Netflix þann 17. júní síðastliðinn.
Sögusvið þáttanna er Vík og nágrenni eftir að Katla hefur gosið í eitt ár og segja þeir frá fólkinu sem hefur enn ekki yfirgefið svæðið, þrátt fyrir náttúruhamfarirnar. Ári eftir að gosið hefst fara undarlegir atburðir að gerast í bænum en þáttunum hefur verið lýst sem dramatískum vísindaskáldskap.
Ýmsar bollaleggingar hafa verið uppi um tengsl þjóðsagna og Kötlugosa og þegar notuð er hefðbundin google-leit, rekast internetferðalangar á samantekt frá 2005 um þjóðsögur í Mýrdal sem eru eftir Dr. Sigrúnu Lilju Einarsdóttur, dósent við félagsvísindadeild og viðskiptadeild Háskólans á Bifröst.
„Einhverjir blaðamenn fóru í hafa samband við mig í kjölfar þess að þessi sería fékk umtalsverða athygli. Þeir komu auga á einhverja tengingu á milli þjóðsagnanna sjálfra og hvort þær væru að mestu leyti bundnar við Kötlu og Kötlugos,“ segir Sigrún í samtali við sunnlenska.is.
„Það er greinilegt að handritshöfundarnir hafa sannarlega unnið heimavinnuna sína, lesið þessa sögu sem kemur fyrir í þáttunum, tekið sér eðlilegt og sjálfsagt skáldaleyfi og fært söguna aðeins í stílinn.“
Gerði ritgerð um efnið fyrir tuttugu árum
Ástæðan fyrir því að blaðamenn hafa sett sig í samband við Sigrúnu er sú að árið 2005 hélt hún námskeið á vegum Fræðslunets Suðurlands sem fjallaði um þjóðsögur og sagnir í Mýrdal. „Námskeiðið byggði ég á BA verkefni mínu í bókmenntafræði, ritgerð sem ég skrifaði árið 2001, fyrir 20 árum síðan en ég hef í raun ekkert unnið meira með þessi fræði í rúm 16 ár. Heftið úr þessu námskeiði er aðgengilegt fyrir alla á vefnum, þannig að þegar blaðamenn fara að gúggla eitthvað um þjóðsögur tengdar Kötlu þá rekast þeir á þetta hefti,“ segir Sigrún og hlær.
BA ritgerð Sigrúnar fjallaði um þjóðtrú í sjálfsævisögu Eyjólfs Guðmundssonar á Hvoli í Mýrdal og í kjölfarið safnaði hún saman öllum þeim skráðu þjóðsögum og munnmælasögum sem hún fann og tengdust þessu svæði.
Hætta á Kötlugosi daglegt brauð
„Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, þannig séð. Ég er sjálf úr Mýrdalnum og með Kötluvánna í blóðinu. Amma upplifði Kötlugos 1918, var þá vinnukona hjá Þorsteini Þorsteinssyni kaupmanni (þar sem nú er Brydebúð) og sagðist ekki vilja upplifa annað eins á meðan hún væri á lífi. Kötluæfingar voru árlegur viðburður þar sem íbúar á hættusvæðum þurftu að yfirgefa húsið, skrá sig hjá yfirvöldum og fara á þann íverustað sem þeim var úthlutað. Það var daglegt brauð að það gæti alltaf farið að gjósa.“
„Ýmsir hafa velt upp þeirri spurning (einkum gagnrýnendur) af hverju persónurnar eru svona ,,rólegar í tíðinni” í Kötluþáttunum, en það er bara lenskan fyrir austan. Að Katla fari að gjósa er eitthvað sem íbúar búa alltaf við en hugsa í raun ekkert of mikið um. Lykilatriðið er að halda ró sinni. Mýrdælingar – og Skaftfellingar almennt – eru æðrulausir og bera virðingu fyrir náttúruöflunum. Það hefði ekki verið trúverðugt ef persónurnar í Netflix-þáttunum hefðu verið algjörlega á útopnu,“ segir Sigrún sem er fædd í Þórisholti í Mýrdal.
Þjóðsögur tengjast fleiru en Kötlugosi
Sigrún segir að þjóðsögurnar snúist um meira en bara Kötlugos en sumir gætu ef til vill haldið að þessi sagnahefð væri bara tengd eldfjallinu. „Það eru nokkrar þjóðsögur sem tengjast Kötlu og Kötlugosum, bæði aðdraganda þeirra og afleiðingum, sumar trúverðugar, aðrar ótrúlegar, eins og gengur. Sagan sem er sögð í þáttunum um stúlkuna sem komst af er til og er skráð. Hún er þó ekki nákvæmlega svona eins og sagt er frá henni í þáttunum, en það er í góðu lagi, sérstaklega þar sem sagnir í munnlegri geymd eiga það til að taka breytingum eftir því sem þær ferðast á milli fólks. Það sem handritshöfundarnir gerðu var að taka þessar sögur, færa þær í stílinn og jafnframt taka ýmis sagnaminni úr þjóðsögunum, tengd huldufólki og umskiptingum og koma svo með þennan áhugaverða snúning úr vísindaskáldskapnum. Þjóðsögurnar sjálfar gegna margvíslegu hlutverki í sagnahefðinni en eitt hlutverkið er að útskýra náttúrufyrirbrigði á borð við jarðskjálfta, eldgos og harðindi, útfrá þjóðtrúnni.”
Hægt að spegla suma karakterana í heimafólkinu
Sigrún er ánægð með Kötluþættina. „Mér fannst þeir hin besta skemmtun og ákaflega spennandi. Þeir eru vel teknir og gaman að sjá heimasveitina sína í þessum búningi, þótt dramatískur sé. Reynslan af Eyjafjallagosinu hjálpaði vafalaust til, bæði hvað varðar myndefni af gosinu sjálfu og við leikmyndahönnun útivið; hálfsokkin hús og reglubundið öskufall.“
„Mér fannst persónusköpunin áhugaverð, full dramatískt á köflum en karakterarnir voru sannfærandi. Kannski má segja að hægt sé að sjá ákveðna samsömun í þessum persónum og í heimafólki í Vík, en ég ætla svo sem ekki að fara nánar útí þá sálma,“ segir Sigrún og hlær.
Sigrún segir að henni hafi þótt lögreglumaðurinn svona í yfirdrifnara lagi, sér í lagi þar sem Mýrdalurinn hafði afburðalögreglumann í áratugi sem kallaði ekki allt ömmu sína en langt frá því að vera einhver öfgamaður: „Það var eini karakterinn sem mér fannst ekki beinlínis sannfærandi, þótt eflaust eigi hann sér margar hliðstæður. Að öðru leyti fannst mér handritshöfundar sýna Mýrdalnum og fólkinu sem þar býr ákveðna virðingu. Það er óttalega klisjukennt að sýna landsbyggðarbúa sem einungis sérvitringa og vitleysinga í íslensku sjónvarps- og kvikmyndaefni. Vissulega er til furðulegir karakterar þar eins og annars staðar en það gerir mannlífið bara skemmtillegt. Hins vegar voru þættirnir áhugaverður bræðingur af þjóðsögum og vísindaskáldskap. Fólk hefur auðvitað misjafnar skoðanir en mér fannst vera borin ákveðin virðing fyrir viðfangsefninu sem skiptir máli – en þó kunna einhverjir að vera mér ósammála um það,“ segir Sigrún sem vonast til að það verði gerð framhaldssería.
„Vonandi verða þessir þættir til þess að almennur áhugi á þjóðsögum aukist á meðal almennings. Ég las og lærði um íslenskar þjóðsögur í skóla og er alin upp við munnmælasögur og sagnir af mínum æskuslóðum. Kannski að unga fólkið farið að glugga í Þjóðsögur Jóns Árnasonar og fleiri gersemar eftir að hafa séð þættina,“ segir Sigrún að lokum.