Aldamótahátíðin hefst á föstudag

Nú líður að Aldamótahátíðinni á Eyrarbakka en dagskráin hefst á föstudagskvöld með Kúmengöngu.

Linda Ásdísardóttir leiðir gönguna og kryddar hana með sögum. Dansiball hefst síðan á Gónhól kl. 21:30 þar sem Hjördís Geirs og Örvar Kristjánsson sjá um fjörið.

Á laugardag verður skrúðgangan hefðbundna frá Barnaskólanum. Lúðrasveit Selfoss og Siggeir Ingólfsson skrúðgöngustjóri leiða hópinn að kjötkötlunum þar sem boðið verður uppá ekta íslenska kjötsúpu fyrir alla þá sem mæta með bollann sinn eða skálina.

Dagskráin verður með hefðbundnu sniði með kappslætti, fornbílaakstri, sýningum, söngvum og dansi auk þess sem blásið verður til brúðkaups í Pútnahúsinu á laugardagssíðdegi og hvítar dúfur fljúga heiðursflug.

Gestrisnir Eyrbekkingar munu bjóða heim til sín og einhverjar húsfreyjur ætla að baka flatkökur á pallinum. Sviðaveislan verður á sínum stað svo og hlöðuballið góða og Rauði barinn með lifandi músík.

Á sunnudag verður svo hádegismessa við Slippinn eftir að Sr. Sveinn Valgeirsson fer um plássið og kveður fólk til messu ásamt Bakkablesu. Að henni lokinni er skák í boði Ungmennafélags Eyrarbakka á Stað og síðan hin vinsæla Rekstrasjón í Gónhól þar sem Hjördís Geirs sér um sunnudagssveifluna. Að lokum verður hátíðinni slitið við Slippinn með fjöldasöng Árna Johnsen og flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Bjargar.

Sjá nánari dagskrá og viðburðatilkynningar á www.husid.com, www.gonholl.is, www.eyrarbakki.is og á www.arborg.is

Fyrri greinSumar á Selfossi: Þúsund þakkir
Næsta greinSkógburstinn breiðir úr sér