Það var mikil spenna í salnum í leikhúsinu við Sigtún síðastliðið föstudagskvöld, þegar Leikfélag Selfoss frumsýndi franska sakamálafarsann Átta konur eftir Robert Thomas í leikstjórn Rakelar Ýrar Stefánsdóttur.
Leikhópinn skipa, eins og nafnið gefur til kynna, átta konur og einn karl og er óhætt að segja að þau hafi haft salinn á valdi sínu frá því fyrsti tónninn í sýningunni var sleginn. Spennan var ekki minni í hléinu og voru gestir svo forvitnir um mögulega framvindu verksins að skera hefði mátt loftið í salnum með kjöthníf.
Leikritið gerist í stofu í sumarbústað þar sem fögur eiginkona, tvær ungar og óstýrilátar dætur, aðþrengd mágkona, gráðug tengdamamma, dularfull ráðskona og kynþokkafull þjónustustúlka eru veðurtepptar. Kvöldið fer nokkuð hægt af stað en þegar húsbóndinn finnst myrtur í herbergi uppi á lofti fara hlutirnir á flug. Og eins og í góðri sakamálasögu liggja allir undir grun.
Það gengur á ýmsu í stofunni, það er aldrei dauð stund, og sýningin er svo brotin upp með söngatriðum, með vel útfærðum sviðshreyfingum og skemmtilegri ljósanotkun. Sýningin rann ágætlega en á nokkrum stöðum hefði mátt huga betur að tempói og tímasetningum, ekki síst í þögnum, en það á örugglega eftir að slípast hratt með fleiri sýningum. Það reynir líka talsvert á leikarana að halda verkinu á floti þar sem stærstan hluta kvöldsins eru sömu persónurnar á sviðinu og stórar vendingar eru fáar. Mesta spennan fylgir innkomu hinnar dularfullu Maríu, sem er ekki öll þar sem hún er séð. Það á í raun og veru um allar konurnar í sýningunni.

Leikhópurinn stendur sig allur með mikilli prýði, bæði í leik og söng, enda reynslumiklir leikarar í flestum hlutverkum. Jónheiður Ísleifsdóttir leikur eiginkonuna Guðnýju af mikilli reisn og öryggi og Sigríður Hafsteinsdóttir á auðvelt með að uppskera mikinn hlátur í kostulegu hlutverki taugahrúgunnar Ágústu sem þjáist meðal annars af tilbreytingarmaníu. Guðfinna Gunnarsdóttir hefur Maríu í hendi sér og Íris Blandon stal senunni sem amma Inga og sannar það að minna er stundum meira. Þá hafði F. Elli Hafliðason virkilega sterka fjarveru í hlutverki húsbóndans.
Öll umgjörð sýningarinnar er vandlega unnin, hugað að smáatriðum leikmynd og búningum en verkið gerist á sjöunda áratug síðustu aldar. Sama má segja um hár og förðun, lýsingu og hljóðmynd, vandað er til verka á öllum sviðum. Þá er ógetið prýðilegrar þýðingar Sævars Sigurgeirssonar sem inniheldur meðal annars hnyttna og listilega smíðaða söngtexta.
Þrátt fyrir að um átta svikakvendi sé að ræða þá verður enginn svikinn af því að eyða kvöldstund með þessum konum.
Guðmundur Karl Sigurdórsson