Stuttmyndin Céu De Agosto, eða Ágústhiminn eftir brasilíska leikstjórann Jasmin Tenucci hlaut sérstaka viðurkenningu á Cannes kvikmyndahátíðinni á laugardaginn.
Sunnlendingarnir Kári Úlfsson og Brúsi Ólason koma að myndinni – Kári framleiddi hana á meðan Brúsi sá um að klippa myndina.
„Þetta var alveg svakaleg góð tilfinning. Eftir að við sýndum myndina á föstudaginn urðum við svolítið bjartsýn að við gætum tekið þetta. Af umtali og viðbrögðum að dæma voru svona þrjár stuttmyndir sem stóðu upp úr,“ segir Kári í samtali við sunnlenska.is.
„Svo á kvöldinu sjálfu var kominn annar tónn í leikstjórann. Hún hafði heyrt einhvern orðróm og var alveg handviss um að við fengjum hvorki pálmann né þessa viðurkenningu.“
„Svo byrjar hátíðin og kynnirinn er að segja eitthvað á frönsku sem enginn skildi og allt í einu heyrum við nafnið á leikstjóranum og myndinni. Þá föttuðum við að við værum búin að fá þetta,“ segir Kári en þess má geta að myndin fékk frábærar viðtökur á hátíðinni.
Ótrúleg tilfinning
Kári er vonum ánægður með verðlaunin og gleðin var mikil þeir gerðu sér grein fyrir að myndin hefði hlotið viðurkenningu. „Algjörlega magnað þegar allur salurinn og allar þessar stórstjörnur klappa fyrir manni og þessari stuttmynd sem maður hefur unnið að síðastliðin tvö, þrjú ár. Ótrúleg tilfinning.“
Þess má geta að í ár voru 3.739 stuttmyndir sendar í keppnina og aðeins tíu komust að. Það að hálf-íslensk mynd hafi hlotið viðurkenningu á hátíðinni er því mikið afrek.
Kári segir að það hafi verið mjög gaman hjá þeim vinum í Cannes. „Maður var smá smeykur við að fara, hefur heyrt allskonar sögur um margmenni, þreytu vegna endalausra funda og smápjalls og svo framvegis. En í ár var hátíðin mun minni í sniðum og þar af leiðandi mun þægilegri og vinalegri. Og fyrir mig hefði hún ekki mátt vera fjölmennari,“ segir Kári að lokum.