Karlakór Selfoss heldur að vanda ferna vortónleika þetta árið. Sem fyrr eru fyrstu tónleikar kórsins í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl og hefjast þeir kl. 20:30.
Efniskrá inniheldur hefðbundin karlakóralög, óperutónlist, íslensk dægurlög og fleira. Á dagskránni eru þannig fjölmörg lög úr kvikmyndum, útsett sérstaklega fyrir kórinn, svo sem Sönn ást úr kvikmyndinni Óðal feðranna, Þig dreymir kannski engil úr Djöflaeyjunni og UFO úr kvikmynd Stuðmanna Með allt á hreinu.
Næstu tónleikar verða svo þriðjudaginn 24. apríl í Selfosskirkju kl. 20:30 og svo í Fella- og Hólakirkju í Breiðholti, fimmtudaginn 26. apríl kl. 20:00. Lokatónleikar þessa starfsárs verða á Flúðum í Félagsheimili Hrunamanna laugardagskvöldið 28. apríl kl. 20:30.
Líkt og undanfarin ár er Skarphéðinn Þór Hjartarson stjórnandi kórsins og Jón Bjarnason undirleikari.