Fjölskyldu- og menningarhátíðin Allt í Blóma verður haldin í Hveragerði dagana 30. júní til 2. júlí.
Dagskráin hefst með tvennum tónleikum í tjaldinu í Lystigarðinum á föstudagskvöld. Bríet ríður á vaðið með fjölskyldutónleikum kl 17:00 og síðan eru tónleikar með Stefáni Hilmarssyni klukkan 21:00.
Á laugardeginum verður svo mikið um að vera á stóra sviðinu í Lystigarðinum en þá koma fram Sirkus Íslands, Halla og Solla úr Latabæ og skemmta gestum. Þá sýna BMX bræður listir sínar og hægt verður að hoppa og skoppa í hoppuköstulum og loftboltum. Svo verður markaður í tjaldinu í Lystigarðinum fyrir þá sem finna sig ekki í hoppuköstulunum. Suðurlandsjazzinn mætir í Lystigarðinn þennan laugardaginn kl 15:00.
Klukkan 19:00 opnar svo Lystigarðurinn aftur og klukkan 20:00 hefst dagskráin á ný með risatónleikum og þá koma fram þau Friðrik Dór, GDRN, Jónas Sig & Unnur Birna ásamt fleirum og glæsilegri hljómsveit. Að lokinni dagskránni á sviðinu verður svo dansleikur í tjaldinu fram á rauða nótt með Gunna Óla, Stefaníu Svavars og Blaz Roca.
Dagskrá Allt í blóma lýkur svo á sunnudagskvöldið kl. 21:00 með tónleikum þar sem Bjartmar Guðlaugs mætir með röddina, gítarinn og sögurnar að vopni.