Hvað eiga verkin á sýningunni Almynstur sameiginlegt með ástríðufullum dansi?
Það kemur ef til vill í ljós á dagskrá Listasafns Árnesinga í dag, sunnudag, þegar Kristín Bjarnadóttir les úr eigin textum kl. 15 og félagar í Tangófélaginu taka síðan við og dansa tangó til kl. 18.
Kristín er búsett í Svíþjóð en dvelur nú í listamannaíbúðinni Varmahlíð í Hveragerði. Hún vakti athygli sem ljóðskáld með ljóðaflokknum Því að þitt er landslagið árið 1999, en undanfarin ár hefur hún gert dans að aðalviðfangsefni í skrifum sínum, bæði ljóðum og greinum. Oft fjallar hún um tangóheiminn frá sjónarhóli tangóþyrstrar norrænar konu. Áhugi hennar á tangó vaknaði þegar hún sá sýningu um sögu tangósins í dansi og tónlist með ýmsum stílbrögðum. Hún hefur kynnt sér tangólífið í nokkrum helstu tangóborgum heimsins svo sem Buenos Aires, Berlín og síðast í París.
Tangófélagið var stofnað árið 2000 af nokkrum áhugasömum dönsurum. Tilgangur með stofnun þess var að efla argentínskan tangó á Íslandi, m.a. með því að skipuleggja regluleg danskvöld og sérstaka tangóviðburði. Núverandi formaður er Ólöf Ingólfsdóttir dansari, danshöfundur og kennari við Listaháskóla Íslands.