Andi sköpunar svífur yfir Eyrarbakka þessa dagana þar sem tuttugu listamenn frá ýmsum heimshornum taka þátt í listahátíðinni Oceanus/Hafsjór – Hafrót.
Hátíðin er nú haldin í þriðja sinn og markmiðið er að efla menningarstarfsemi og listsköpun á svæðinu. Ásta Guðmundsdóttir, stjórnandi hátíðarinnar, segir mikilvægt að víkka sjóndeildarhring samfélagsins með því að fá erlenda listamenn til að taka þátt og deila sinni sýn á umhverfi okkar.
„Erlenda listafólkið er heillað af Íslandi, bæði náttúru og fólki. Eyrarbakki er góður grunnur fyrir listsköpun, þar er mikil saga og öll gömlu húsin bera þess merki. Það er áhugavert að sjá þann veg sem hver og einn fetar í list sinni á hátíðinni. Afraksturinn er magnaður,“ segir Ásta.
Vildi gefa til baka
Hugmyndin að hátíðinni kviknaði fyrir 8 árum. Ásta hafði tekið þátt í ótal listahátíðum erlendis, skynjað kraftinn sem býr í þeim og fannst tímabært að gefa til baka. Hún ákvað að fjárfesta í húsi á Eyrarbakka og gefa sköpunargyðjunni lausann tauminn. Í ár taka 20 listamenn þátt í hátíðinni og koma þeir frá Slóvakíu, Póllandi, Þýskalandi, Suður-Kóreu, Mauritius, Frakklandi, Japan, Mexíkó, Ítalíu, Kanada og Íslandi. Þeir hafa sótt innblástur úr náttúru og menningu Eyrarbakka og notið samskipta við íbúa þorpsins.
Draumastaður til listsköpunar
Ásta segir Eyrarbakka draumastað til listsköpunar og þorpið standa þétt við hátíðina. Fólk úr öllum áttum leggi sitt af mörkum – hvort sem það sé með því að bjóða listamönnum gistingu, elda mat eða aðstoða við uppsetningu sýninga. Ásta segir þennan veljvilja og stuðning ómetanlegan.
Börn eru frjáls og hugmyndarík
Leik- og grunnskólabörn á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa fengið tækifæri til að taka þátt í hátíðinni. Börnin hafa mætt í vinnustofur með listamönnunum, þar sem þau hafa fengið að sleppa fram af sér beislinu í sköpunargleðinni. Ásta segir þetta hafa verið einn af hápunktum hátíðarinnar, það sé svo einstakt að vinna með börnum, þau séu svo frjáls og hugmyndarík. Hátíðin er einnig í nánu samstarfi við nemendur á listnámsbraut í FSU.
„Í rauninni allt opið og allt leyfilegt og það sem náttúrulega gerist í svona er að fólk fer að vinna saman og verður fyrir áhrifum hvert frá öðru og auðvitað staðnum og heimafólki og það er stórkostlegt að upplifa það,“ segir Ásta.
Opnunarhátíð laugardaginn 28. september
Sýningartímar hátíðarinnar eru laugardaginn 28. september kl. 14:00 til 18:00, sunnudaginn 29. september kl. 13:00 til 18:00, laugardaginn 5. október kl. 13:00 til 18:00 og sunnudaginn 6. október kl. 13:00 til 18:00.
Listamennirnir sem taka þátt í hátíðinni eru Auðunn Kvaran, Auður Hildur Hákonardóttir, Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir, Becky Fortsythe, Bragi Hilmarsson, Christine Gísla, Dario Massarotto, Genevieve Bonieux, Hekla Dögg Jónsdóttir, Gio Ju, Hera Fjord, Yuliana Palacios, Jörg Paul Janka, Manou Soobhany, Margrét Norðdahl, Piotr Zamjoski, Soffía Sæmundsdóttir, Tei Kobayashi, Teitur Björgvinsson og Xenia Imrova.
Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar og á samfélagsmiðlum undir @oceanus_hafsjor