Hljómsveitin Hr. Eydís heldur áfram með ´80s ábreiðurnar og að þessu sinni er það lagið Freedom með tvíeykinu Wham!. Eins og oft áður fékk Hr. Eydís söngkonuna Ernu Hrönn til liðs við sig og var lagið tekið upp á Sviðinu á Selfossi.
Lagið er af plötunni Make it Big sem kom út í október árið 1984. Platan var önnur studíóplata strákanna og sú var aldeilis hlaðin smellum. Allir þekkja auðvitað Wake Me Up Before You Go-Go, Everything She Wants, Careless Whisper og Freedom. Já, engin smá lög og öll á sömu plötunni enda fór platan á toppinn beggja vegna Atlantsála.
„Það var kominn tími á Wham! hjá okkur á YouTube-rásina, en við höfum reyndar tekið Freedom á tónleikum við fögnuð viðstaddra. Það verður gaman að telja í lagið á Akureyri á Græna hattinum á laugardagskvöld,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís, en þar mun hljómsveitin halda „Alvöru ´80s partý“ ásamt Ernu Hrönn.
„Ég var meira fyrir Duran Duran en Wham! á níunda áratugnum, hlustaði á harðara stöff eins og það var kallað og reyndi að vera töff. En það komst rækilega upp um mann á skólaböllum þegar maður kunni svo textann við lögin með Wham!,“ segir Örlygur Smári og hlær dátt að minningunni. „Það kom svo í ljós að George Michael var algjör snillingur og lögin hafa lifað allt fram á þennan dag, enda alveg stórkostleg!“