Hr. Eydís sendi frá sér nýja ábreiðu í dag, hreinræktaða ’80s kraftballöðu en það er lagið Alone með Heart. Söngurinn í þessu lagi er ekki á allra færi og Hr. Eydís fékk því söngkonuna Sigríði Guðnadóttur til liðs við sig.
Fólk þekkir Siggu aldeilis ekki úr ´80s deildinni því hún skaust fram á sjónasviðið með Jet Black Joe á tíunda áratugnum með laginu Freedom.
„Við spiluðum þetta lag með Siggu á árshátíð Isavia í vor og við misstum allir hökuna, Sigga renndi sér svo fimlega í gegnum lagið og tók háu nótuna eins og að drekka vatn. Við bara urðum að fá hana til að taka þetta upp með okkur,“ segir Páll Sveinsson, trommari Hr. Eydís.
Tökulag frá i-Ten
Alone með Heart er reyndar tökulag eða ábreiða. Það kom ekki upprunalega út með Heart heldur með sveitinni i-Ten árið 1983. Þeirra útgáfa gerði ekki mikið en ábreiðan með Heart kom út árið 1987 og fór á toppinn bæði í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum. Heart ákvað reyndar að fara með lagið í aðra átt, gera þetta að kraftballöðu, en þær voru ákaflega vinsælar á þessum tíma… sérstaklega hjá rokkhljómsveitum.
„Við tókum þetta lag upp á tónleikastaðnum Sviðinu sem er í nýja miðbænum á Selfossi. Alveg frábær staður fyrir tónleika og kunnum Þóri á Sviðinu miklar þakkir fyrir að leyfa okkur að nota staðinn fyrir þessa upptöku. Gaman að breyta aðeins til og komast út úr bílskúrnum þar sem við höfum fram að þessu tekið upp ´80s ábreiðurnar okkar,“ bætir Páll við.