Í byrjun apríl mun Leikfélag Austur-Eyfellinga frumsýna frumsamda leikgerð eftir skáldsögu Jóns Trausta um Austur-Eyfellinginn Önnu Vigfúsdóttur í Stóru-Borg.
Margrét Tryggvadóttir leikskólakennari á Hvolsvelli skrifar leikgerðina og leikstjóri er Sveinn Óskar Ásbjörnsson. Þátttakendur eru á þriðja tug. Sýningar verða í félagsheimilinu Heimalandi undir fjöllunum.
Með titilhlutverkið fer Þórunn Ólafsdóttir og bróður hennar, Pál Vigfússon lögmann á Hlíðarenda, leikur Bjarni Böðvarsson. Anna Vigfúsdóttir var fædd í byrjun 16. aldar og dó árið 1571. Hún var hefðarkona en þekktust fyrir samband sitt við alþýðupiltinn Hjalta Magnússon og langvarandi stríð við lögmanninn bróður sinn af þeim sökum. Siðaskiptin koma þar líka töluvert við sögu.
Fyrir réttum 100 árum, árið 1914, skrifaði Jón Trausti skáldsögu um Önnu sem byggð er á heimildum og sögnum úr héraði um samband hennar við Hjalta og átökin við Pál. Skáldsagan naut strax mikillar hylli en er nú í fyrsta sinn færð upp á leiksvið. Sem er viðeigandi á aldarafmæli þessarar hárómantísku ástarsögu um sjálfstæða konu, sem gefur kynsystrum sínum í Njálu ekkert eftir þegar kemur að því að bjóða körlum byrginn.
Leikfélag Austur-Eyfellinga var stofnað árið 1970 og er fyrsta leikfélagið í Rangárvallasýslu.