Í tilefni af Degi íslenskrar tungu verður hátíðardagskrá í Hvolsskóla á morgun, fimmtudag, þar sem nemendur 10. bekkjar lesa Brennu-Njáls sögu.
Þetta er áttunda árið í röð sem Njála er lesin í tilefni af Degi íslenskrar tungu og hefst hátíðin kl. 8:15 að morgni og lýkur kl. 19:00.
Heiðursgestur hátíðarinnar að þessu sinni er Friðrik Erlingsson rithöfundur sem m.a. hefur samið bækurnar um Afa minn í sveitinni, Benjamín dúfu og þrumuguðinn Þór sem flest börn þekkja. Friðrik hefur einnig fengist við þýðingar og m.a. þýtt tvær bækur úr sænsku um Tsatsíki, úr ensku hefur hann m.a. þýtt fimm styttar endursagnir á frægum skáldsögum í ritröð Námsgagnastofnunar og loks má nefna að hann þýddi Vesalingana fyrir Þjóðleikhúsið, en það er mest sýndi söngleikur í heimi.
Lesturinn er brotinn upp stöku sinnum yfir daginn með atriðum nemenda Hvolsskóla og Tónlistarskóla Rangæinga auk þess sem Hringurinn, kór eldri borgara, syngur nokkur lög.
Það er í höndum nemenda í 7. bekk að lesa ljóðið Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson en með því hefja þeir formlega þátttöku sína í Stóru upplestrarkeppni 7. bekkjar sem lýkur með glæsilegri lokahátíð í mars.
Gestir eru hjartanlega velkomnir. Dagskrá hátíðarinnar má finna í heild sinni á heimasíðu Hvolsskóla www.hvolsskoli.is