Í tilefni af 80 ára afmæli Árnesingafélagsins í Reykjavík verður haldinn afmælisfagnaður þann 25. október nk. fyrsta vetrardag.
Árnesingafélagið í Reykjavík var stofnað 27. maí 1934 að frumkvæði Eiríks Einarssonar alþingismanns og telst það vera elsta átthagafélag í landinu, því að það hefur starfað óslitið síðan. Stofnfélagar voru 59 talsins. Fyrsti formaður þess var Jón Pálsson bankagjaldkeri, en ritari Guðni Jónsson magister.
Félagið gekkst fyrir ýmsum samkomum burtfluttra Árnesinga, svonefndum Árnesingamótum í Reykjavík að vetrinum. Fyrsta mótið var 1. desember 1934 og sóttu það 150 manns. Jónsmessumót voru svo haldin á ýmsum stöðum í Árnesþingi um áratugaskeið. Mikill og góður félagsandi var í félaginu og þátttaka í samkomum þess góð.
Félagið gekkst fyrir því að reistur var minnisvarði um Áshildarmýrarsamþykkt sem gerð var 1496 í Áshildarmýri á Skeiðum 1948. Minnisvarðar um Ásgrím Jónsson málara, Sigríði Jónsdóttur í Brattholti og Tómas Guðmundsson skáld hafa einnig verið reistir á viðeigandi stöðum í Árnessýslu. Skógrækt var drjúgur þáttur í starfsemi félagsins, bæði í Áshildarmýri og við Vellankötlu við Þingvallavatn. Öflugt starf Árnesingakórsins sem hófst 1966 hefur stutt við starfsemi félagsins svo að um munar.
Afmælishátíðin verður haldin í Húnabúð, Skeifunni 11 og hefst kl. 19:00 með fordrykk og borðhaldi.
Til skemmtunar verður:
Árnesingakórinn í Reykjavík syngur undir stjórn Gunnars Ben, undirleik annast Bjarni Þ. Jónatansson.
Svavar Sigmundsson flytur stutt ágrip af sögu félagsins.
Gissur Páll Gissurarson óperusöngvari syngur nokkur lög.
Fjöldasöngur.
Veislustjóri verður Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra og alþingismaður.
Sighvatur Sveinsson leikur fyrir dansi.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í hátíðinni hafi samband við undirritaðar fyrir 20. október n.k.
Áshildur Emilsdóttir s. 866-7833
Herdís P. Pálsdóttir s. 867-8395
Ingibjörg Valdimarsdóttir s. 894-1048
Allir velkomnir