Í dag kl. 15 verður opnuð ný sýning í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, sem fengið hefur nafnið Ásjóna. Þar eru ný og eldri verk úr safneigninni til sýnis og áhersla lögð á teikningu og portrett.
Sjálfsskoðun er áleitin og viðvarandi hjá flestum myndlistarmönnum og segja má að Listasafn Árnesinga fari nú í einhvers konar sjálfsskoðun með sýningunni Ásjónu. Verkin koma úr eigin safneign og mörg hafa sterkar rætur í nærsamfélaginu.
Þau eru öll frá 20. öldinni, það elsta frá því um aldamótin 1900, Sjálfsmynd Ásgríms Jónssonar þar sem hann horfir rannsakandi fram í rýmið sem ungur listnemi í Kaupmannahöfn en yngsta verkið á sýningunni er Höfuðfætlur eftur Magnús Kjartansson frá níunda áratugnum. Fleiri portrett frá ýmsum tímum eru þar líka eftir Kjarval, Höskuld Björnsson og Ástu Guðrúnu Eyvindardóttur og þrívíð portrait eftir bæði Halldór Einarsson og Sigurjón Ólafsson.
Ásjónur 42 bænda úr Grímsneshreppi sem Baltasar festi á blað á árunum1965-66 er einstakt safn teikninga úr heilu byggðarlagi. Tæpum tíu árum síðar, árið 1974, lögðu 25 sunnlenskar konur leið sína úr sveitinni á Alþingi til þess m.a. að krefjast viðurkenningar á eigin vinnuframlagi. Um þessa sögulegu för óf Hildur Hákonardóttir verkið Sunnlenskar konur mótmæla á Alþingi sem er eitt verkanna á sýningunni.
Markmið sýningarinnar er sú sjálfsskoðun sem áður er minnst á en einnig það að sýna verk eftir C.F. Ahl, Höskuld Björnsson og Magnús Kjartansson sem eiga það sammerkt að hafa verið gefin til safnsins á síðustu árum og ekki verið sýnd þar áður.
Síðast en ekki síst er gestum boðið að þjálfa sig í teikningu með því að skoða, sjá og skynja verkin, sem valin voru til sýningar með tilliti til gildis teikningarinnar því auk þess að njóta verkanna á sýningunni er gestum boðið að teikna að vild og Guðrún Tryggvadóttir og Katrín Briem veita leiðsögn í teikningu tvo laugardaga hvor.