Ljósmyndarinn Páll Jökull Pétursson opnaði um síðustu helgi sína áttundu einkasýningu í veitingahúsinu Eldhúsinu að Tryggvagötu 40, á Selfossi.
Páll Jökull er mikilvirkur ljósmyndari og hefur á ferli sínum tekið þátt í sextán samsýningum og einkasýningarnar eru nú orðnar átta. Fyrsta sýning sem hann tók þátt í var 2004 í Vetrahátíðinni í Reykjavík. Ljósmyndaferill hans hófst löngu fyrr þar sem hann var fréttaritari DV í Mýrdalnum um árabil. Páll Jökull er einn þriggja eigenda og ljósmyndari tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn með aðsetur á Selfossi.
Páll Jökull er Samvinnuskólagenginn og hefur sótt fjölda námskeiða í tölvutengdum greinum og ljósmyndun. Hann hefur einnig haldið fjölda námskeiða í ljósmyndun og býður nú erlendum ljósmyndurum og ferðamönnum upp á ljósmyndaferðir um landið. Þess má geta að von er á fyrstu ljósmyndabók Páls Jökuls eftir páskana, en hún heitir „A Portrait of Iceland“ og er hans sýn á íslenskt landslag í portrait formati.
Sýningin í Eldhúsinu er önnur ljósmyndasýning Páls Jökuls á þeim stað og sýnir þar tólf landslagsmyndir allar teknar á Suðurlandi á síðustu þremur árum. Sýningin stendur fram í maí.