Auglýst eftir myndum fyrir sýningu í Þorlákshöfn

Ljósmynd/Ágústa Ragnarsdóttir

Vorið 2017 datt einhverjum snillingnum í hug að losa sig við hægindastól á Óseyrartanga í Ölfusi, rétt hjá Hafinu bláa.

Stóllinn vakti strax mikla lukku meðal vegfarenda og áður en leið á löngu var búið að bæta við mottu, túbusjónvarpi, borði og lampa. Fjöldi fólk staldraði þarna við til að hvíla lúin bein og taka myndir en húsgögnin voru svo fjarlægð þegar leið á haustið.

Í vor birtist skyndilega annar hægindastóll og hefur hann ekki síður vakið áhuga þeirra sem hjá fara.

Gallerí undir stiganum, í samstarfi við Ágústu Ragnarsdóttur, hefur áhuga á að setja upp sýningu á ljósmyndum sem teknar eru af stólunum góðu og er nú auglýst eftir myndum sem fólk hefur tekið á staðnum.

Enn er tækifæri til að taka myndir en hver veit hversu lengi veðrið býður upp á það. Ekki er búið að ákveða hvenær sýningin opnar enda veltur tilvera hennar alfarið á þátttöku almennings.

Myndir má senda á arny@olfus.is

Fyrri greinÁkærður fyrir milljónastuld frá björgunarfélaginu
Næsta greinEgill tapaði gegn sterkum Slóvaka