Þó að það sé sunnudagur í dag þá er allt í lagi að spila nýjasta föstudagslagið með Hr. Eydís. Að þessu sinni er það lagið Dancing In The Dark með Bruce Springsteen, einnig þekktur sem „The Boss“.
Lagið er af plötunni Born In The USA sem kom út vorið 1984 og var samið sérstaklega eftir að Jon Landau, sem stjórnaði upptökum, kvartaði yfir því að það vantaði hittarann á plötuna.
„The Boss höfðaði þannig séð ekkert sérstaklega til mín, en þetta lag hitti einhvern veginn beint í mark á sínum tíma,“ segir Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís. „Það var einhver auka töffaraskapur í þessu hjá Springsteen sem átti sérstaklega upp á pallborðið hjá manni á þessum tíma,“ bætir hann við.