Leikfélag Hveragerðis frumsýndi Ávaxtakörfuna í lok september og hafa viðtökurnar ekki staðið á sér. Uppselt er á allar sýningar í október og búið er að bæta við sýningum í nóvember og desember.
Valdimar Ingi Guðmundsson, formaður leikfélagsins segir að það sé alltaf ánægjulegt þegar sýningar ganga vel og leikhópurinn og aðstandendur fá að uppskera ríkulega laun erfiðisins frá æfingatímabilinu.En í þessu tilfelli sé það sérstaklega ánægjulegt að viðtökurnar séu svona góðar.
„Leikur, söngur og öll umgjörð sýningarinnar er með besta móti á mælikvarða áhugaleikhússins og sumir sýningargestir hafa meira að segja haft á orði að mörkin milli áhugaleikhúss og atvinnuleikhúss séu vart greinanleg á þessari sýningu. En það sem skiptir þó mestu máli er boðskapur verksins sem á erindi sem víðast, því þarna er verið að taka á erfiðum málefnum líkt og einelti, fordómum og útskúfun á einfaldan og myndrænan hátt. Öll börn hafa gott af því að meðtaka þennan boðskap og temja sér betri samskipti í kjölfarið,“ segir Valdimar Ingi.
Miðasala fer fram á Tix.is