Leikfélag Hveragerðis frumsýndi í gær Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu M. Sigurðardóttur með tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson.
Leikstjóri er Gunnar Gunnsteinsson sem einmitt leikstýrði Ávaxtakörfunni þegar hún var frumflutt í Íslensku óperunni árið 1998 og aftur í Austurbæ 2005. Gunnar endurnýjar því bæði kynnin við leikverkið og einnig leikhópinn en þetta er í annað sinn sem Gunnar leikstýrir hjá Leikfélagi Hveragerðis. Áður hafði hann leikstýrt ævintýrinu um Benedikt búálf veturinn 2022-2023 við frábærar undirtektir. Gunnari til halds og trausts á æfingatímabilinu var stórsöngkonan Andrea Gylfadóttir sem sá um söngþjálfun.
Verkið Ávaxtakarfan er löngu orðið klassískt í íslenskri menningu en í því er tekist á við fordóma, einelti og mismunun á einlægum og auðskildum nótum. Við fáum að fylgjast með lífinu í ávaxtakörfunni þar sem ýmislegt gengur á milli ólíkra einstaklinga því sumir eru ber og aðrir grænmeti. Mæja jarðarber er lögð í einelti af hinum í körfunni því hún er öðruvísi. Immi ananas er voldugasti ávöxturinn og ætlar að krýna sjálfan sig konung en svo breytist allt þegar Gedda gulrót kemur í körfuna. Boðskapur verksins á ekki síður erindi í dag eins og hann átti þegar verkið var skrifað fyrir réttum aldarfjórðungi.
Leikarar og aðstandendur sýningarinnar fengu frábærar móttökur á frumsýningunni í gær. Önnur sýning er í dag og verkið verður sýnt næstu helgar á laugardögum og sunnudögum. Sýningar fara fram í leikhúsinu við Austurmörk í Hveragerði og er miðasala á Tix.is. Fyrirspurnir og hópapantanir fara fram á leikhver@gmail.com.